Lánsframboðið á 8. áratugnum og fyrir 2008
Það er tvennt sem virðist vera ofarlega í huga fólks í kjölfarið á greinaröð okkar Ásgeirs Daníelssonar í Kjarnanum, bæði nátengt hvoru öðru. 

Hið fyrsta er hinn meinti skortur á sparnaði sem á að hafa verið ástæða þess hví biðraðir mynduðust eftir lánsfé á 8. áratugnum. Það tel ég rangt og hef bent á hversu hratt útlán bankanna þöndust út á þessum tíma. Hið annað er að ef ég hef rétt fyrir mér um ofgnótt lánsfjár á 8. áratugnum, hvernig gátu þá biðraðirnar myndast?

Skýringin fyrir báðum atriðum liggur í misskilningi um hvernig bankar og markaðurinn með lán virka: bankar eru ekki milligönguaðilar milli þeirra sem vilja spara og þeirra sem vilja taka lán og lánaskömmtun (e. credit rationing) er eðlilegur hluti lánamarkaðar, hvort sem lánamarkaður er frjáls eða ekki. 

Skorturinn á sparnaði

Í fyrsta lagi virðist sumt fólk ekki trúa því að mikið lánaframboð á 8. áratugnum hafi verið mögulegt því verðbólga var svo mikil. Vegna verðbólgunnar vildi þá enginn spara og þar sem ekkert framboð af sparnaði var til staðar átti lánaframboðið náttúrulega að vera takmarkað - því sparnaður verður jú að gerast áður en einhver getur tekið lán, ekki satt?

Þetta viðhorf er gamla "loanable funds" kenningin í nýklassískri hagfræði: einhver verður að spara, t.d. með því að leggja féð í banka, til að einhver annar geti tekið viðkomandi sparnað að láni, t.d. með láni frá banka. Þetta er líka angi af hinni svokölluðu "commodity theory of money", þ.e. að grundvöllur virðis peninga sé varan sem þeir eru gerðir úr og að best sé að horfa á peninga sem hverja aðra vöru - og markaðurinn með peninga á þá að haga sér eins og hver annar vörumarkaður með framboði, eftirspurn o.s.frv.

Þessar kenningar, þ.e. "loanable funds" og "commodity theory of money" eru því miður ekki í sátt við raunveruleikann. Bankar eru ekki milligönguaðilar þeirra sem vilja spara og þeirra sem vilja taka lán heldur búa bankar til bæði útlánið og innlánið á sama tíma. Enginn þarf að leggja fé inn í banka til að viðkomandi banki geti veitt lán. Þetta er hluti af því sem er kallað "credit theory of money", þ.e. að grundvöllur virðis peninga sé traust

Það er óþarfi að trúa mér einum í þessu samhengi, hér eru t.d. seðlabanki Englands og seðlabanki Þýskalands að leggja áherslu á að bankar séu ekki milligönguaðilar milli þeirra sem vilja spara og þeirra sem vilja taka lán:

Þannig er það svo að lánaframboð bankastofnana fer ekki eftir því hvort einhver spari (leggi fé í banka) eða ekki. Þess vegna var "skortur á sparnaði" á 8. áratugnum enginn þegar kom að því að fá lán hjá banka, einfaldlega vegna þess að enginn þörf var á sparnaði til að bankar gætu veitt lánin. 

Löngu biðraðirnar á 8. áratugnum

Í öðru lagi hefur borið á því að vísað sé til þess að skortur hafi verið á framboði af lánum á 8. áratugnum og er t.d., eins og Ásgeir gerir, vísað til löngu biðraðana eftir viðtölum við bankastjóra. Því hljóti að hafa verið skortur á framboði af lánum, ekki satt?

En biðraðirnar eftir viðtölum við bankastjóra á 8. áratugnum voru ekki vegna skorts á láns´fé heldur vegna þess að bankar stunduðu öðruvísi lánaskömmtun (e. credit rationing) þá miðað við nú. 

Það verður að undirstrika að markaðurinn með láns´fé virkar ekki eins og hver annar vörumarkaður (því credit theory of money er réttari í raunveruleikanum en commodity theory of money). Markaðir eiga að virka þannig að lækki verðið á vörunni munu fleiri kaupendur koma á markaðinn. En lánamarkaður er drifin áfram af lánaskömmtun þar sem aðilar á framboðshlið markaðarins takmarka magnið af lánum sem þeir veita, jafnvel þótt eftirspurnarhliðin sé til í að taka lán á vöxtunum, þ.e. "borga markaðsverðið á vörunni", sem gilda þann daginn: jafnvel þótt Jón vilji taka lán á 10% vöxtum þá treystir bankinn honum ekki einu sinni til að geta borgað lánið til baka á 2% vöxtum. Þannig er framboðshliðin af lánum það sem kallað er "short side of the market", sem er dæmi um það sem er kallað markaðsbrestur í nýklassískri hagfræði: verðbreytingar (vaxtabreytingar) nægja ekki til að koma á "jafnvægi" á markaðinn þar sem framboð og eftirspurn eru jafnt hvoru öðru. 

Það er gaman að minnast á að Adam Smith áttaði sig á þessu. Hann kallaði þá sem vildu taka lán á háum vöxtum "prodigals and projectors" ("eyðsluklær og draumóramenn") og studdi þess vegna 5% vaxtaþakið sem var við lýði á þeim tíma í Englandi: hann áttaði sig á að markaðsbrestur var á markaði með lánsfé og þess vegna studdi hann inngrip hins opinbera.  

Lánaskömmtun mun áfram vera til staðar þótt lántakinn væri til í að taka lán á hærri vöxtum en væru í gildi þann daginn því bankinn telur sig ekki græða á því að lána viðkomandi lántaka, einfaldlega vegna þess að bankinn er ekki sammála því að lántakinn geti borgað lánið til baka. Þetta gildir hvort sem um fullkomlega frjálsan lánamarkað er að ræða eða ekki því bankar gera þetta alltaf: á hverjum einasta degi fá fjölskyldur og fyrirtæki sem vilja taka lán hjá banka á verði fjármagns (vöxtum) þann daginn þau svör að bankinn vilji ekki veita þeim lánið. Bankar þannig bæði búa til og skammta lánsfjármagn - sem aftur býr til fróðlegar pælingar um hversu mikil áhrif stýrivaxtabreytingar (verðbreytingar) hafa í raun á lánsfjármarkað og hagkerfið sem heild. En það er önnur saga. 

Ástandið á 8. áratugnum og löngu biðraðirnar voru þannig ekki drifnar af skorti af sparnaði sem ekki átti að vera til staðar til þeirra sem vildu taka lán heldur vegna þess að lánaskömmtun bankakerfisins var m.a. byggð á því hvort þú værir í rétta pólítíska flokknum eða ekki. 

Lánaskömmtun bankakerfisins í dag er hins vegar meira háð því hvort bankinn telji sig græða á því að búa til útlán og innlán handa þér en lánaskömmtunin er til staðar eftir sem áður. Skorturinn á sparnaði er vitanlega enginn í dag, alveg eins og fyrir 40 árum síðan. En lánaskömmtunin er öðruvísi, þ.e. hún er framkvæmd á annan hátt en fyrir 40 árum.

Samanburður á lánsfjárframboðinu á 8. áratugnum og fyrir 2008

Það er auðvelt að sýna fram á að framboð lánsfjár á þessum tíma var ekki af skornum skammti á 8. áratugnum. Ein einföld leið til þess er að bera saman lánaútþenslu bankakerfisins á árunum fyrir Hrun við lánaútþensluna sem átti sér stað á 8. áratugnum því svo virðist vera sem allir séu sammála um að þá hafi verið "ofgnótt lánsfjár". Og sá samanburður er hér (athugið að þessi samanburður er ófullkominn að því leyti að eiginleg stærð bankakerfisins á hverjum tíma skiptir máli - en enginn getur vitanlega haldið því fram að ef bankakerfið er að auka útlán sín að framboð af lánum sé lítið):

Athugið að skalinn á y-ás er sá sami til að einfalda samanburðinn. Og sem sjá má er lánaútþensla bankakerfisins á 8. áratugnum meiri ef eitthvað er en á árunum fyrir 2008. 

Og auðvelt er að sjá breytinguna í lánaskömmtun bankakerfisins árið 2004 þegar bankarnir byrjuðu að lána grimmt til íbúðarkaupa: útlán innlánastofnana til heimila jukust um 63% árið 2004 og 78% árið 2005. Þetta er ekki vegna þess að einhver hópur ákvað að spara meira svo úr varð meira framboð af láns´fé heldur vegna þess að bankarnir breyttu framkvæmd lánaskömmtunar sinnar á þessum tíma. Á þessum tíma var beinlínis hringt í fólk og því boðið að taka lán.

Enn mikilvægara er að átta sig á að heildarútþensla lánsfjár frá innlánastofnunum á 8. áratugnum var ekki aðeins til handa öllum geirum hagkerfisins, þ.e. til fyrirtækja, heimila og hins opinbera, heldur var hún meiri en á árunum fyrir Hrun. 

Afleiðingarnar og drifkrafturinn voru hins vegar ekki sá sami. Á 8. áratugnum hækkaði olíuverð mikið og launakröfur voru miklar. Þessar kostnaðarhækkanir þurfti að fjármagna á einhvern hátt og helsta aðferðin til slíks er vitanlega lánsfé: mikil eftirspurn eftir lánsfé frá bankakerfinu varð raunin og úr urðu hinar löngu biðraðir þegar bankarnir skömmtuðu fé handa þeim sem voru í rétta flokknum en skildu hina úti í frostinu. Hið aukna lánsfé varð til þess að framleiðslan var fjármögnuð og því átti hún sér stað: hefði fjármögnin ekki átt sér stað hefði það leitt til þess að framleiðslan hefði aldrei átt sér stað með tilheyrandi atvinnuleysi (sem er vitanlega hví pólítíkusar þess tíma sögðu bönkunum að fjármagna kostnaðarhækkanirnar, jafnvel þótt verðbólga yrði í kjölfarið há). Kostnaðarhækkanirnar á framboðshlið hagkerfisins vegna olíu- og nafnlaunahækkana var svo velt yfir í verðlag til að finna greiðsluflæði sem nota átti til að borga lánin til baka. Og úr varð hin mikla verðbólga á þessum tíma. 

Þessi þróun var fullkomlega í samræmi við post-Keynesian monetary circuit theory. Athugið að peningarnir voru búnir til til þess að fjármagna kostnaðarhækkanir og það voru kostnaðarhækkanir sem ýttu verðlagi upp á við en ekki aukið peningamagn: þetta snýr peningamagnskenningunni nær á haus en samkvæmt henni eykst peningamagn fyrst, svo kostnaður, svo verðlag.

Á árunum fyrir Hrun var lánsféð hins vegar búið til vegna þess að mikill vilji var hjá fyrirtækjum og einstaklingum til að taka lán til íbúða- og fyrirtækjakakupa. Sama fyrirtækið var selt nokkrum sinnum á ári og alltaf hækkaði verðið. Og verðið hækkaði vegna þess að fjármögnun fyrir slíku var í boði vegna breyttrar lánaskömmtunar bankakerfisins. Hið sama gilti um íbúðaverð. 

Drifkrafturinn að baki útlánaþenslu bankakerfisins á 8. áratugnum voru því kostnaðarhækkanir á framboðshlið hagkerfisins meðan vilji til spákaupmennsku var drifkrafturinn á árunum fyrir Hrun. Afleiðingin var há verðbólga á 8. áratugnum en eignaverðsbólga, bæði á húsnæðis- sem hlutabréfamarkaði, á árunum fyrir Hrun.

En hvað með samdráttinn í lánum bankakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu?

Að lokum er rétt að fjalla um eftirfarandi orð Ásgeirs:

Það er rétt hjá Ólafi að nafn­virði útlána inn­láns­stofn­ana jókst mikið á þessum árum, enda verð­bólgan mik­il, einkum eftir 1973. Þetta með „ofgnótt láns­fjár“ á þessum árum er hins vegar ekki alveg í sam­ræmi við löngu biðrað­irnar eftir við­tölum við banka­stjóra eða þá stað­reynd að raun­virði útlán­anna minnk­aði og virði þeirra sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu sömu leiðis eins og sést á með­fylgj­andi mynd. 

Með orðunum "enda verðbólgan mikil" er Ásgeir að beita peningamagnskenningunni: mikil útþensla peningamagns leiðir til mikilla verðhækkana. Ég er búinn að benda á hér að ofan að verðhækkanir á þessum tíma voru drifnar áfram að kostnaðarverðshækkunum sem voru aftur fjármagnaðar með nýju lánsfé: circuit theory of money snýr peningamagnskenningunni við. 

En mikilvægast er að benda á Ásgeiri á að þótt virði [útlána] sem hlufall af landsframleiðslu lækki er það ekki merki um skort á útlánum: það er merki þess að útlánin fari í að þenja út landsframleiðslu, sem er nákvæmlega það sem þau gerðu þegar þau voru notuð til að fjármagna framleiðslu á hærra kostnaðarverði vegna olíuverðs- og nafnlaunahækkana þess tíma.

Það skiptir nefnilega máli í hvað lánin eru notuð. Eftirfarandi myndir sýna nákvæmlega það sem ég benti á hér að ofan að á 8. áratugnum voru lánin notuð til að fjármagna framleiðslu - sem er það sem er í nefnaranum í hlutfallinu "útlán/landsframleiðsla" - meðan þau voru ekki notuð til þess á árunum fyrir Hrun, því þá voru þau notuð til að hækka eignaverð.

Ég skil vel að það sé erfitt að hætta að hugsa í rauntölum þegar hagfræðingar eru búnir að hamra á því í áratugi að það verði að hugsa í rauntölum til að komast að réttri niðurstöðu í efnahagslegum álitamálum. 

En líkt og Keynes benti á þá fela nafnstærðir, t.d. greiðsluflæði, í sér yfirgripsmeiri og almennari sýn á hagkerfið en raunstærðir eingöngu. Ástæðan er að nafnstærðir ná utan um raunstærðir og margt annað sem skiptir máli, s.s. samningsbundnar fjárhagslegar stærðir sem langflestar eru gerðar í nafnstærðum en ekki raunstærðum: þú missir húsnæðið þitt ef þú stendur ekki við samningsbundið nafngreiðsluflæði af láninu þínu, en þú missir ekki húsnæðið þótt þú standir ekki við "raungreiðsluflæðið" (sem væri nafngreiðsluflæði "leiðrétt" með þróun verðlags) af láninu þínu. 

Keynes var svo sannfærður um þetta að þetta var ein af ástæðum þess að hann kallaði bók sína "Hin almenna kenning um atvinnu, vexti og peninga". Með orðinu "almenna" vildi hann leggja áherslu á kenning hans væri yfirgripsmeiri en kenningin þess efnis að raunstærðir væru það sem skiptu máli í hagkerfinu: raunstærðir væru sértækt tilfelli meðan nafnstærðir væru almennar.

Og líkt og hann benti á: "vandinn felst ekki í hinum nýju hugmyndum... heldur að sleppa frá hinum gömlu".


Ólafur Margeirsson PhD released this post 3 days early for patrons.   Become a patron