Leiguhúsnæði í Bandaríkjunum - 1. hluti
Þetta er leiguverð í Reykjavík, ca. 2500-3000kr. á fm. eftir hverfum.

Í vikunni sem leið skoðaði ég, vegna vinnu, Nova Apartments í Seattle. Þarna eru 62 íbúðir í einni blokk með ýmis konar þægindum sem fylgja með í leiguverðinu, til að mynda:

  • húsvörður sem reddar hverju sem þarf að redda og er á staðnum fyrir póst o.fl. (mikilvægt fyrir Amazon pakkana sem eru alltaf að koma)
  • uppþvottavél, þvottavél og þurrkari innifalin í leigu, þvottavélin og þurrkarinn eru inni í hverri íbúð
  • útigrillsvæði með þremur gasgrillum
  • samkomusvæði fyrir íbúa
  • háhraða internet
  • útisvæði með borðum, stólum og bekkjum, mjög vinsælt á sumrin
  • 30min fjarlægð (með almenningssamgöngum) frá miðbæ Seattle
  • gæludýr leyfð (því Bandaríkjamenn fatta að hundar geta líka verið í borg)

(Athugið að þegar þið skoðið bandarískar íbúðir er talað um "beds" sem svefnherbergi en stofan er alltaf til staðar. "1 bed" væri þannig íslensk tveggja herberga íbúð, þ.e. svefnherbergi + stofa. Ég mun tala um Nova út frá íslenska vananum hér á eftir).

Hér eru nokkrar myndir af blokkinni, íbúðunum og umhverfinu. Ég get vottað fyrir að þetta eru myndir sem lýsa öllu vel. 


Blokkin sjálf:


Samkomusvæðið í sameigninni, til hægri á myndinni (út af mynd) er lítið elduhúsborð og sjónvarp. Hringstiginn liggur svo út á sólpallinn og grillsvæðið:


Herbergið í tveggja herbergja íbúð, athugið að veggurinn milli herbergis og stofu er glerveggur sem hægt er að renna til baka til að stækka rýmið. Það er ætlast til þess að 1-2 búi í hverri íbúð:


Stofan í tveggja herbergja íbúð, myndin er tekin fyrir framan sjónvarpið:


Sólpallurinn og útigrillsvæðið, þarna eru þrjú gasgrill sem íbúar geta notað að vild:


Baðherbergið í tveggja herbergja íbúð, í horninu bakvið hurðina má finna þvottavél og barkalausan þurrkara:


Inngangur í íbúð og eldhús:


Hér er svo típískt skipulag á tveggja herbergja íbúð: 

Sambærilegt fyrir Ísland en framboð af ódýrum íbúðum tryggt

Einhver gæti haldið að svona lagað - með öllum aukabúnaðinum (grillin eru frábær!!) - væri miklu dýrara að leigja en á Íslandi. 

En þetta er samanburðarhæft við Reykjavík. Tveggja herbergja íbúðir (56 - 61fm) kosta ca. 160.000kr. á mánuði eða ríflega 2.600-2.800kr. á fermetra (miðað við sterka gengið á ISK í dag). Það miðast svo við ca. 2.500kr./fm á fermetra í Grafarvogi, Árbæ og Grafarholti upp í 3.000kr./fm í miðbæ Reykjavíkur.

Hins vegar verður líka að hafa í huga að Seattle er mjög rík borg. Miðgildi tekna hjóna er næst hæst í Bandaríkjunum öllum. Svo það er ekki að undra að leigan geti verið há í Seattle.

En svo er trikkið eftirfarandi: það er skylda fyrir eiganda blokkarinnar að leigja ákveðið hlutfall íbúðanna út á lægra verði en markaðsverði. Slíkar íbúðir eru ætlaðar lágtekjuhópum og geta verið 20-30% ódýrari, þ.e. 110-125þ. fyrir 55-60fm íbúð. Hver og ein blokk þarf að innihalda ca. 15-25% íbúða ætlaða lágtekjufólki (9-15 íbúðir af 62 íbúðum í þessu tilviki) og það er Seattle borg sjálf sem ræður leigunni í þessum íbúðum. Eigandi blokkarinnar fær í staðinn skattaafslátt (fasteignaskattar) af því að eiga viðkomandi eignir.

Þetta eru fjárfestar sáttir við svo þeir eru til í að kaupa svona blokkir. Og það er mikið af þeim og mikið af þeim í byggingu í Bandaríkjunum öllum. Enda er eftirspurn eftir svona íbúðum, þær eru flottar og það er mikið i þær og umhverfi þeirra lagt. Enda er einn þriðji allra Bandaríkjamanna á leigumarkaði, þ.e. þeir eiga ekki húsnæðið sem þeir búa í.

Augljóst fjárfestingartækifæri fyrir lífeyrissjóði

Athugið líka að þetta eru íbúðir sem stofnanafjárfestar, s.s. lífeyrissjóðir, eru að kaupa. Vitanlega eru til ódýrari íbúðir í Seattle (og dýrari líka) en þetta er standardinn sem vænta má af fjárfestingum lífeyrissjóða í Seattle (og raunar Bandaríkjunum öllum) þegar kemur að íbúðarhúsnæði sem þeir eiga og leigja út.

Lífeyrissjóðir í Bandaríkjunum eru líka byrjaðir að taka það alvarlega að fjármagna uppbyggingu ódýrs húsnæðis. Lífeyrissjóðir New York borgar settu 45 milljarða króna í bæði ódýr húsnæðislán og uppbyggingu ódýrs húsnæðis í fyrra. Og það er augljós þjóðhagslegur ábati í því að ýta undir trygga og stöðuga fjármögnun á uppbyggingu húsnæðis frá lífeyrissjóðunum, sem þeir geta svo átt og rekið sjálfir sem leiguhúsnæði: meira framboð af leiguhúsnæði, lægri leiga, lægra húsnæðisverð, lægri verðbólga, lægri vextir. 

Kem svo með næsta hluta á næstu dögum, skoðaði nefnilega aðra blokk í Portland. Hún var stærri, ríflega 150 íbúðir, en ódýrari. Og þar voru íbúðir fyrir lágtekjufólk enn ódýrari. Sameignarsvæðið var líka öðruvísi, m.a. var gym í húsinu sjálfu sem allir íbúar gátu notað. Og hún var í miðbæ Portland!


Ólafur Margeirsson PhD released this post 3 days early for patrons.   Become a patron